Handbolti

Landin var með samning við Kiel til 2025 en nýtti sér sérstaka fjölskylduklásúlu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Niklas Landin í símanum á leið heim eftir heimsmeistaratitil Dana árið 2021.
Niklas Landin í símanum á leið heim eftir heimsmeistaratitil Dana árið 2021. EPA-EFE/Mads Claus Rasmussen

Danski landsliðsmarkvörðurinn Niklas Landin er á leiðinni til danska félagsins Aalborg Håndbold og komu félagsskiptin mikið á óvart ekki síst þar sem hann átti eftir þrjú ár af nýjum samningi sínum við Kiel.

Landin nýtti sér sérstakt ákvæði í samningi sínum þar sem hann gat losað sig vegna fjölskylduástæðna.

„Við förum heim vegna fjölskylduástæðna. Þetta er það sem fjölskyldan taldi vera best eftir þær áskoranir sem við höfum glímt við síðasta árið,“ sagði Niklas Landin við TV2. Hann er búinn að spila í Þýskalandi í ellefu ár, fyrst með Rhein-Neckar Löwen 2012 til 2015 og svo með Kiel frá árinu 2015.

„Kiel vissi vel af þessari klásúlu í samningi mínum um fjölskylduástæðurnar. Þeir voru auðvitað ekki ánægðir að heyra þetta en um leið sýndu þau mér skilning af því að fjölskyldan er mér mikilvæg. Ef fjölskyldumálin eru í ólestri þá virkar þú ekki heldur sem handboltamaður,“ sagði Landin.

Landin hafði skrifað undir nýjan samning við Kiel fyrir aðeins mánuði síðan.

Kiel greindi jafnframt frá því að Álaborg þarf að kaupa upp samninginn hans Landin en sú upphæð var þó ekki gefin út.

„Vegna kórónuveirunnar þá hafa margir tekið eftir því hvað það þýðir að vera án fjölskyldu sinnar og geta ekki heimsótt hana eins og venjulega. Við vorum samt hissa á ákvörðun Niklas að snúa heim til Danmerkur áður en samningurinn rann út. Þetta býr til alvöru áskorun fyrir okkur en við munum reyna að bregðast við henni,“ sagði Viktor Szilágyi, íþróttastjóri Kiel við TV2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×