Hinn 26 ára gamli Dandre Martin var handtekinn af lögreglunni í Sacramento í Kaliforníu í dag. Martin hefur verið ákærður fyrir líkamsárás og ólöglega vopnavörslu. Talið er að nokkrir hafi tekið þátt í skotárásinni, þar sem fjölda skota var hleypt af á svæði sem var fullt af fólki nærri þinghúsi Kaliforníu.
Þrír karlmenn og þrjár konur létust í árásinni: Sergio Harris, 38 ára, De'Vazia Turner, 29 ára, Joshua Hoye-Lucchesi, 32 ára, Johntaya Alexander, 21 árs, Melinda Davis, 57 ára, og Yamile Martinez-Andrade, 21 árs.
Um er að ræða mannskæðustu skotárásina í Bandaríkjunum á þessu ári. Lögregla segir að öll fórnarlambanna hafi látist á vettvangi og að fjöldi árásarmanna hafi tekið þátt í skothríðinni sem hófst um klukkan tvö á aðfaranótt sunnudags, að staðartíma.
Þar að auki særðust tólf í árásinni og voru þau öll færð á spítala til að gangast undir læknishendur. Sjö þeirra voru útskrifuð af spítalanum í dag.
Lögreglan hefur framkvæmt fjölda húsleita í borginni í dag og lagt var hald á minnst eina skammbyssu, sem lögregla segir að hafi verið stolið.
Af myndböndum, sem birst hafa á samfélagsmiðlum undanfarna tvo daga, að dæma höfðu brotist út fjölmenn slagsmál á árásarsvæðinu á aðfaranótt sunnudags áður en skothvellir heyrðust. Á svæðinu má finna fjöldann allan af veitingastöðum og skemmtistöðum. Óljóst er enn hvort skotbardaginn hafi brotist út í kjölfar slagsmálanna og hvort hann tengist þeim eitthvað.