BBC segir frá því að árásin hafi verið gerð í hverfinu Bnei Brak þar sem heittrúaðir gyðingar séu fjölmennir. Byssumaðurinn var síðan skotinn til bana af lögreglu en mikil öryggisgæsla er í borginni í kjölfar árásanna á dögunum þar sem sex létu lífið.
Árásirnar hafa allar verið framkvæmdar af Palestínumönnum sem búsettir eru í Ísrael.
Byssumaðurinn í nótt var vopnaður riffli og skaut á fólk úti á götu, þar á meðal ökumann sem átti leið hjá. Einn lögreglumaður er á meðal hinna látnu.
Ísraelskir miðlar segja byssumanninn hafa verið 26 ára gamlan og hafði hann áður setið í fangelsi í Ísrael.
Forsætisráðherra Ísraela, Naftali Bennett hefur boðað til neyðarfundar hjá öryggisráði landsins vegna málsins.