Rússar eru taldir ætla sér að króa bróðurpart úkraínska hersins af í héraðinu.
Þegar Rússar réðust inn í Úkraínu árið 2014 og innlimuðu Krímskaga gerðu þeir einnig árás með aðskilnaðarsinnum í Donbas. Þeir náðu upprunalega góðum árangri en voru seinna meir reknir nokkuð afturábak. Víglínurnar breyttust svo lítið í gegnum árin, þar til Rússar gerðu innrás aftur.

Vilja allt héraðið
Skömmu fyrir innrásina lýsti Vladimír Pútín, forseti Rússlands, því yfir að Rússland viðurkenndi yfirráðasvæði tveggja fylkinga aðskilnaðarsinna í Donbass sem sjálfstæð lýðveldi. Þau kallast Donetsko og Luhans og Pútín lýsti því yfir að yfirráðasvæði þessara lýðvelda ætti að vera allt Donbas-hérað. Aðskilnaðarsinnarnir stjórnuðu þó einungis um þriðjungi héraðsins.
Í greiningu New York Times á hreyfingu víglína í og við Donabs segir að harðir bardagar hafið geysað víða í héraðinu.
Samkvæmt frétt Financial Times (áskriftarvefur) er útlit fyrir að Rússar hafi breytt um stefnu í ljósi slæms gengis í Úkraínu og ætli að einbeita sér að Donbas.
Fjórðungur hersins í Donbas
Talið er að allt að fjörutíu þúsund úkraínskir hermenn, þjálfaðir og reynslumiklir, séu á víglínunni í Donbas. Það myndi samsvarar um fjórðungi af herafla Úkraínu, þegar innrás Rússa hófst fyrir mánuði síðan.
Hér má sjá yfirlitskort yfir stöðuna í Úkraínu í gærkvöldi.
Today's map includes significant changes due to #Ukrainian counteroffensives over the past two days. The expanded areas of assessed #Russian control in Luhansk are the result of improved data on our end and do not indicate that the Russians have made further gains in recent days. pic.twitter.com/1r9ryU9Wak
— ISW (@TheStudyofWar) March 23, 2022
Herdeildirnar í Donbas hafa átt í átökum nánast samfleytt í átta ár og hafa fengið umfangsmikla þjálfun frá Bandaríkjamönnum, Bretum og Kanadamönnum. Þá hafa þeir haft átta ár til að undirbúa varnir sínar og eru taldir í góðum varnarstöðum.
Sérfræðingar og embættismenn sem blaðamenn FT ræddu við segja að Rússar virðist hafa sett sér tvö ný markmið. Annað er að umkringja borgir og gera stórskotaliðsárásir á þær, mögulega til að styrkja stöðu sína í viðræðum.
Pútín fengi færi á að lýsa yfir sigri
Hitt markmiðið er að sigra úkraínska herinn í Maríupól og umkringja úkraínska herinn í Donbas með því að sækja í norður frá Maríupól og í suður frá Kharkív. Það myndi gera Rússum kleift að ná tökum á öllu Donbas-héraði og mynda landbrú frá Krímskaga til Rússlands.
Það gæti sömuleiðis dregið úr baráttuvilja Úkraínumanna og gert Rússum fært að beita þeim herafla sem er í austurhluta Úkraínu gegn vörnum Úkraínumanna nærri Kænugarði.
Þá gæti sú atburðarás gert Pútín kleift að lýsa yfir sigri heima fyrir í Rússlandi, segjast hafa brotið her Úkraínu á bak aftur og innlimað lýðveldin í Donetsk og Luhansk.
Til þessa eru Rússar sagðir notast við sína öflugustu herdeildir til að sækja gegn úkraínska hernum í Donbas. Einn sérfræðingur sagði FT að Rússar hefðu mögulega burði til að brjóta varnir Úkraínumanna á bak aftur í héraðinu og Rússar virtust hafa aukið samhæfni hersveita á svæðinu.