Varnaræfingin Norður-Víkingur hefur verið haldin reglulega frá 1982 en hún grundvallast á ákvæðum varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá 1951. Æfingin átti að fara fram árið 2020 en fresta þurfti henni vegna heimsfaraldurins, að því er segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Alls er reiknað með að heildarfjöldi þátttakenda í æfingunni á Íslandi verði rúmlega 700 manns, um helmingur þeirra verður á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Gert er ráð fyrir að þegar æfingunni er lokið komi tvö til fjögur herskip til hafnar í Reykjavík og áhafnir doki við í landi um stutta stund.
Liður í Norður-Víkingi er lending bandarískra landgönguliða við Miðsand í Hvalfirði. Lendingin er áætluð kringum 11. apríl og má þá búast við tímabundnum takmörkunum á umferð um svæðið. Fjölmiðlar verður veitt tækifæri til að fylgjast með æfingunni og viðburðum henni tengdri eins og frekast er kostur.
Það verða ekki einungis Bandaríkjamenn sem taka þátt í æfingunni en sjóherir Bretlands, Frakklands, Þýskalands og Noregs hafa staðfest þátttöku. Herskip frá þessum ríkjum munu æfa varnir siglingaleiðanna suður af Íslandi og taka þátt í kafbátaleit undan ströndum Íslands með þátttöku kafbátaleitarvéla og þyrlna frá viðkomandi þátttökuþjóðum.
Tilgangur æfingarinnar er meðal annars að æfa varnir sjóleiðanna í kringum landið og varnir mikilvægra mannvirkja og öryggisinnviða, til dæmis fjarskiptakapla. Þá æfa þátttakendur leit og björgun almennra borgara og taka Landhelgisgæslan og lögreglan þátt í þeim hluta, að því er segir í tilkynningunni.