Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í allan dag.
Helstu vendingar:
- Úkraínumenn hafa náð tökum á mikilvægu úthverfi Kænugarðs sem gerir Rússum mun erfiðara að umkringja höfuðborgina. Úkraínski herinn segir að birgðir rússneska innrásarhersins, þar á meðal matur og skotfæri, muni aðeins duga í um þrjá daga í viðbót. Þá séu olíubirgðir þeirra einnig á þrotum.
- Selenskí segir að án þess að ræða beint við Pútín sé ómögulegt að gera sér grein fyrir því hvað þarf til að Rússar láti af hernaðarátökum í landinu. Úkraínska þjóðin muni fyrr sæta algjörri eyðileggingu af hálfu Rússa en að gefast upp.
- Joe Biden Bandaríkjaforseti segir augljós merki uppi um að Rússar íhugi að nota efnavopn í Úkraínu og hefur jafnframt varað við netárásum. Hernaðaryfirvöld í Bandaríkjunum segjast hafa óyggjandi sönnunargögn fyrir stríðsglæpum Rússa. Talsmaður Pútíns útilokar ekki að kjarnorkuvopnum verði beitt.
- Sendiráð Rússlands í Bandaríkjunum hefur hafnað ásökunum Úkraínumanna um að flóttafólk frá Maríupól hafi verið flutt til Rússlands gegn vilja sínum. Það segir rússneska herinn þvert á móti aðstoða fólk og sjá því fyrir mat og lyfjum. Selenskí segir borgina í rústum og kallar eftir aðgerðum.
- Bandaríkjaforseti mun ásamt leiðtogum annarra G7 ríkja tilkynna hertar refsiaðgerðir gegn Rússum en fulltrúar Evrópusambandsins og NATO funda í Brussel í vikunni.
