Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í allan dag.
Helstu tíðindi:
- Vladimír Pútín er ekki enn tilbúinn til að ræða við Vólódímír Selenskí. Forseti Tyrklands hefur rætt við þá báða og Tyrkir segja Pútín líklega vilja styrkja stöðu sína fyrst.
- Þá er Pútín sagður hafa sætt sig við að hann geti ekki komið Selensí frá völdum.
- Sérfræðingar sem AP fréttaveitan ræddi við segja engin ummerki um að stríðinu muni ljúka í bráð.
- Breska varnarmálaráðuneytið segir í daglegri stöðufærslu sinni að Rússum hafi mistekist að ná upphaflegum markmiðum sínum og að hörð andspyrna Úkraínumanna hafi komið þeim á óvart. Þeir hafi því gripið til þess ráðs að beina vopnum sínum að almennum borgurum og innviðum.
- Sameinuðu þjóðirnar segja 816 almenna borgar hafa látið lífið í átökunum og 1.333 særst. Raunverulegur fjöldi er þó líklega meiri. Borgaryfirvöld í Kænugarði sögðu í gær að 222 hefðu látist í árásum Rússa á höfuðborgina, þar af 60 almennir borgarar og fjögur börn.
- Fumio Kishida, forsætisráðherra Japan, mun hitta Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, í Nýju Delí í dag og kalla eftir sameiginlegu alþjóðlegu átaki til að binda enda enda á stríðið í Úkraínu.
- AFP segir að minnsta kosti 40 úkraínska hermenn hafa fallið í árás Rússa á herstöð í borginni Mykolaiv. Borgarstjórinn Oleksandr Senkevich segir nokkur þorp í héraðinu hafa verið hernumin og að borgin hafi sætt hörðum árásum.
