Liverpool minnkar forskot Manchester City niður í eitt stig með tveggja marka sigri á Arsenal í London, 0-2.
Fyrri hálfleikurinn var nánast allur í eigu gestanna frá Liverpool sem áttu hættulegri færi en náðu þó ekki að koma knettinum í netið. Snemma í síðari hálfleik fór besta færi leiksins þó til Arsenal þegar Thiago, leikmaður Liverpool, á sendingu til baka sem Lacazette kemst inn í. Lacazette gefur boltann áfram á Odegaard en Alisson, markvörður Liverpool sér við Odegaard og ver frábærlega frá þeim norska.
Liverpool refsaði Arsenal stuttu seinna. Jota skoraði fyrsta mark leiksins á 54. mínútu leiksins eftir flottan undirbúning Thagio, í þetta sinn á hinum enda vallarins. Firmino tvöfaldaði forystu gestanna sex mínútum síðar þegar hápressa Liverpool skilaði sér. Robertson vinnur boltann hátt á vellinum og kemur honum fyrir markið á Firmino sem klárar færið sitt snyrtilega, lokatölur 0-2.
Liverpool er því komið í 69 stig, aðeins einu stigi á eftir Manchester City þegar bæði lið hafa leikið 29 leiki. Arsenal er áfram í fjórða sæti með 51 stig eftir 27 leiki.