Bayern greindi frá því 5. janúar að Davies, sem var fullbólusettur, hefði smitast af kórónuveirunni. Við læknisskoðun í kjölfarið var Davies greindur með væga hjartavöðvabólgu sem veirusýkingin getur valdið.
Davies hefur því ekki spilað með Bayern eftir jólafríið, eða síðan 17. desember, en mætti til æfinga með bæði hlaupa- takkaskó í gær, á séræfingar með líkamsræktarþjálfara Bayern. Bæjarar munu þó fara sér að engu óðslega.
For the first time in nearly two months, @AlphonsoDavies completed a running session at Säbener this morning #MiaSanMia pic.twitter.com/t9eKtRBPbA
— FC Bayern English (@FCBayernEN) March 13, 2022
„Hjartavöðvabólgan er farin. Bataferlið virðist hafa heppnast eins vel og hugsast gæti,“ sagði Julian Nagelsmann, þjálfari Bayern, eftir 1-1 jafnteflið við Hoffenheim í þýsku 1. deildinni um helgina.
Nagelsmann sagði að Davies fengi sinn tíma til að jafna sig. „Ef allt gengur rosalega vel þá eru þrjár eða fjórar vikur í viðbót í hann,“ sagði Nagelsmann.
Bayern er komið í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu en það skýrist á föstudaginn hverjir mótherjar liðsins verða þar. Leikirnir verða 5. eða 6. apríl og 12. eða 13. apríl, og því mögulegt að Davies verði þá klár í slaginn.
Þrátt fyrir tvö jafntefli í röð er Bayern með sjö stiga forskot á Dortmund á toppi þýsku 1. deildarinnar en Dortmund á þó leik til góða.