Umræðan

Samkeppnismál stóru tæknifyrirtækjanna

Peter Dalmay skrifar

Stóru tæknifyrirtækin, Google, Amazon, Facebook (nú Meta), Apple og Microsoft, hafa á undanförnum árum setið undir alvarlegum ásökunum og verið til rannsóknar hjá samkeppnisyfirvöldum beggja vegna Atlantshafsins. Tæknifyrirtækin hafa verið sökuð um ýmsar samkeppnishamlandi aðgerðir sem felast meðal annars í því að hygla eigin starfsemi á kostnað keppinauta sinna, beita ólögmætum viðskiptaskilmálum og verðlagningu og að nota styrk sinn til þess að bæta stöðu sína á nýjum stafrænum mörkuðum. Þá hafa sumir gengið lengra og haldið því fram að vegna stærðar þessara tæknifyrirtækja sé staða þeirra orðin svo sterk að tilvist þeirra sem slík raski samkeppni án tillits til háttsemi þeirra.

Sú spurning vaknar því óneitanlega hvort, og þá hvernig, samkeppnisyfirvöld (þ.m.t. hér á landi) eigi að bregðast við. Í þessu sambandi hlýtur að vera grundvallaratriði að greina helstu einkenni þessara fyrirtækja og þá markaði sem þau starfa á, ásamt þeirri samkeppni sem þau búa við.

Einkenni tæknifyrirtækjanna

Það er ljóst að tæknifyrirtækin eiga ýmislegt sameiginlegt. Starfsemi þeirra er almennt fjölbreytileg og nær til ólíkra stafrænna markaða. Sem dæmi selur Amazon vörur í gegnum vefverslun sína en starfrækir jafnframt streymisveitu. Google rekur almenna vefleitarvél en auk þess býður fyrirtækið upp á ýmsa aðra þjónustu, t.d. dreifingu á vefauglýsingum og landakortaþjónustu, og svona mætti áfram telja. Starfsumhverfi tæknifyrirtækjanna einkennist jafnframt af skjótum tækniframförum og tekur að verulegu leyti mið af þeirri óvissu sem slíkar framfarir hafa í för með sér. Þá virðast öll fyrrgreind tæknifyrirtæki leggja verulega áherslu á vöxt til framtíðar umfram skammtíma gróða. Í því skyni verja tæknifyrirtækin töluverðum fjármunum í ýmis þróunarverkefni, rannsóknir og nýsköpun. Auk þess eru þau sveigjanleg og óhrædd við að gera afdrifaríkar breytingar á starfsemi sinni. Umskipti Apple á því að bjóða upp á opið stýrikerfi í átt að lokuðu vistkerfi er gott dæmi um það.

Sumir hafa gengið lengra og haldið því fram að vegna stærðar þessara tæknifyrirtækja sé staða þeirra orðin svo sterk að tilvist þeirra sem slík raski samkeppni án tillits til háttsemi þeirra.

Í umræðunni hefur aftur á móti að mestu leyti verið litið framhjá framangreindum einkennum og látið við það sitja að beina sjónum að stærð þessara fyrirtækja. Þá hefur takmörkuð umfjöllun átt sér stað um það samkeppnislega aðhald sem þessi tæknifyrirtæki veita hvert öðru. Hvað sem hinni almennu umræðu líður er aftur á móti ljóst að það fellur á endanum í skaut dómstóla að skera úr um lögmæti aðgerða tæknifyrirtækjanna. Í því sambandi nægir ekki að vísa til stöðu og stærðar tæknifyrirtækjanna heldur þarf að færa sönnur fyrir því að háttsemi þeirra sé til þess fallin að raska samkeppni, líkt og sjá má af dómi undirréttar Evrópudómstólsins í máli Intel gegn framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem féll fyrr á þessu ári (mál nr. T-286/09).

Dómur undirréttar Evrópudómstólsins í máli Intel

Málið á rætur að rekja til ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar frá 2009 þar sem lögð var há sekt á tæknifyrirtækið Intel fyrir misnotkun þess á markaðsráðandi stöðu sinni með svokölluðum tryggðarafsláttum til ákveðinna viðskiptavina fyrirtækisins. Framkvæmdastjórnin taldi í ákvörðuninni að aðgerðir Intel hefðu í eðli sínu verið ólögmætar án tillits til þess hver raunveruleg áhrif þeirra hefðu verið á viðkomandi markaði.

Með stefnumarkandi dómi undirréttarins var ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar felld úr gildi og sektin sem lögð hafði verið á fyrirtækið felld niður nánast að öllu leyti. Í dóminum var sérstaklega áréttað að það væri nauðsynlegt að sýna fram á að viðkomandi háttsemi hins markaðsráðandi tæknifyrirtækis væri til þess fallin að raska samkeppni, ef að leggja ætti til grundvallar að brot á samkeppnisreglum væri fyrir hendi. Samkeppnisyfirvöldum hefði með öðrum orðum borið að færa sönnur á samkeppnishamlandi háttsemi í samræmi við þær sönnunarkröfur sem gert væri ráð fyrir í lögum. Misnotkun á stöðu markaðsráðandi (tækni)fyrirtækja ætti sér því ekki stað við það eitt að viðkomandi háttsemi, í þessu tilviki tryggðarafslættir, hefðu átt sér stað heldur þyrfti að sanna mögulega röskun þeirra á samkeppni.

Framkvæmdastjórnin taldi í ákvörðuninni að aðgerðir Intel hefðu í eðli sínu verið ólögmætar án tillits til þess hver raunveruleg áhrif þeirra hefðu verið á viðkomandi markaði. Með stefnumarkandi dómi undirréttar Evrópudómstólsins var sú ákvörðun felld úr gildi.

Horft til framtíðar

Það er ljóst að viðhorf bæði almennings og yfirvalda gagnvart stóru tæknifyrirtækjunum hefur breyst umtalsvert á örfáum árum. Umrædd viðhorfsbreyting endurspeglast ekki síst í víðtækum rannsóknum samkeppnisyfirvalda á starfsemi tæknifyrirtækjanna og fjölda sektarákvarðana á hendur þeim, auk fyrirhugaðrar lagasetningar beggja vegna Atlantshafsins. Endanlegt úrskurðarvald liggur þó sem endranær hjá dómstólum. Af þessu leiðir að það nægir ekki að vísa til tilvistar umræddra tæknifyrirtækja heldur er nauðsynlegt að færa fullnægjandi sönnur fyrir mögulegum samkeppnishamlandi afleiðingum sem stafa af einstökum aðgerðum þeirra

Höfundur er lögmaður á Mörkinni lögmannsstofu.




Umræðan

Sjá meira


×