Þá förum við í heimsókn til Vestmannaeyja, þar sem var kolófært í morgun í mesta fannfergi sem íbúar muna í fimmtán ár. Við sýnum magnaðar myndir frá snjónum og ræðum svo við veðurfræðing í beinni útsendingu um ofsaveður sem gengur yfir landið annað kvöld.
Við tökum einnig stöðuna á hernaðarumsvifum Rússa við landamæri Úkraínu, þar sem flestir búast við innrás á næstu dögum. Rússar hafa hætt við að kalla hermenn sína í Hvíta-Rússlandi aftur heim.
Þá segjum við frá því að aldrei hafa fleiri hjúkrunarfræðingar sótt um í styrktarsjóð Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og sömuleiðis hafa aldrei fleiri hjúkrunarfræðingar verið í þjónustu hjá VIRK.
Við fjöllum einnig um hvimleitt vandamál sem margir Íslendingar glíma við þessa dagana en óviðeigandi skilaboð frá erlendum klámsíðum hafa hrúgast inn í pósthólf fólks á samfélagsmiðlum. En það er hægt að losna við þau, ef fólk vill, og við sýnum ykkur hvernig best er að gera það.