Fyrrverandi starfsmaður utanríkisráðuneytis Bretlands sakaði í desember Johnson um að hafa lagt meiri áherslu á að koma gæludýrum frá Afganistan en fólki þegar óreiðan þar var hvað mest við yfirtöku Talibana í fyrra.
Það sagði Johnson að væri „algjör þvættingur“.
In December, Boris Johnson described claims he had authorised Afghan animal evacuation as "complete nonsense"
— BBC Politics (@BBCPolitics) January 26, 2022
New leaked emails suggest he was personally involved in ensuring animals and charity workers were evacuated from Kabul#BBCRealityCheck https://t.co/V9PlXnlJJZ pic.twitter.com/6SFuM4kJsI
Utanríkismálanefnd breska þingsins, sem hefur verið að rannsaka aðgerðir ríkisstjórnar Johnsons varðandi brottförina frá Afganistan, opinberaði hins vegar í dag tölvupósta þar sem fram kemur að forsætisráðherrann gaf sjálfur heimild til að kettir og hundar á vegum góðgerðafélags yrðu flutt frá Afganistan.
Í frétt Sky News kemur fram að málið snýr að góðgerðafélaginu Nowzad sem rekið er af Pen Farthing, fyrrverandi landgönguliða í breska hernum. Þegar varnir stjórnarhers Afganistans féllu eins og spilaborg í haust lagði Farthing mikið kapp á að koma dýrum sínum frá landinu og leigði til þess flugvél.
Yfirvöld Bretlands veittu Farthing heimild til að fljúga til og frá Afganistan til að sækja dýrin. Strax í kjölfarið heyrðist gagnrýni á þá leið að verið væri að leggja meiri áherslu á að sækja dýr en fólk og þar á meðal menn sem höfðu unnið með breska hernum.
Raphael Marshall sakaði svo ríkisstjórn Johnsons í desember um mikið skipulagsleysi í tengslum við brottflutningana. Hann sagði einnig að Jonhson hefði ákveðið að forgangsraða dýraflutningana og sagði þá ákvörðun hafa komið beint niður á brottflutningi breskra og afganskra ríkisborgara.
Í tölvupóstunum segir berum orðum að forsætisráðherrann hafi veitt heimild til að flytja dýr Nowzad frá Afganistan og sömuleiðis starfsmenn góðgerðasamtakanna, sem hefðu ekki verið fluttir til Bretlands án inngrips Johnsons, samkvæmt einum tölvupóstinum.
Talsmaður forsætisráðuneytisins segir það enn satt að Johnson hafi aldrei skipað embættismönnum að grípa til sérstakra aðgerða, samkvæmt svörum við fyrirspurn Sky News.
Stjórnarandstaðan var fljót að gagnrýna Johnson vegna tölvupóstanna og hefur hann meðal annars verið sakaður um að ljúga „enn og aftur“ að bresku þjóðinni.