Þjóðverjinn Ralf Rangnick var ráðinn til að stýra United út leiktíðina eftir að Ole Gunnar Solskjær var rekinn í nóvember. Í sumar skiptir Rangnick svo um starf og verður ráðgjafi fyrir enska félagið.
Stjóraleit United hefur því staðið yfir síðustu mánuði og samkvæmt hinum virta miðli The Athletic er United núna að hefja ráðningarferlið.
Annar að gera góða hluti með spænska landsliðið en hinn rekinn þaðan fyrir að semja við Real
Fjórir valkostir koma til greina, samkvæmt The Athletic. Lengi hefur verið vitað að Mauricio Pochettino, sem stýrir PSG, og Erik ten Hag hjá Ajax væru á listanum, en þar eru einnig tveir Spánverjar, þeir Luis Enrique og Julen Lopetegui.
Enrique hefur stýrt spænska landsliðinu frá árinu 2018, með stuttu hléi vegna veikinda dóttur sinnar sem lést úr krabbameini aðeins 9 ára gömul í ágúst 2019.
Enrique kom Spáni í undanúrslit á EM síðasta sumar þar sem liðið tapaði í vítaspyrnukeppni gegn verðandi meisturum Ítalíu.
Lopetegui er stjóri Sevilla og stýrði liðinu til sigurs í Evrópudeildinni árið 2020. Hann var landsliðsþjálfari Spánar frá 2016-2018 en var rekinn örfáum dögum áður en Spánn hóf keppni á HM, eftir að upp komst að hann hefði gert samkomulag við Real Madrid um að taka við liðinu. Hann entist aðeins rétt rúma tvo mánuði í starfi hjá Madrid.
United vann West Ham 1-0 um helgina, með sigurmarki Marcus Rashford á síðustu stundu, og er sem stendur í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar sem gefur þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.