En það er líka mikilvægt að huga að lífinu og vinnu með öðrum gleraugum, þegar að við höfum jafnað okkur á kulnun.
Og lært margt af henni.
Hér eru nokkur atriði til að minna okkur á, að falla ekki aftur í sömu gömlu gryfjurnar.
1. Að hlaða batteríin daglega (eins og símann)
Brjálað að gera í vinnunni þýðir ekkert bara stress því oft geta vinnutarnir verið svo skemmtilegar að við hreinlega gleymum okkur.
Reyndar finnst okkur svo gaman stundum að við varla finnum fyrir þreytu.
Verkefnið skemmtilegt, vinnuumhverfið skemmtilegt, árangur að nást. Já allt að gerast!
En eitt af því sem kulnunin hefur kennt okkur er að það að hlaða ekki batteríin okkar á hverjum degi, er hættulegt.
Rafhlaðan okkar verður hreinlega tóm.
Að hlaða okkar eigin batterí á því að vera okkur jafn tamt og að hlaða símann. Þetta getum við gert með því að rækta okkur sjálf betur, áhugamál, fjölskyldu og vini. Passa upp á góðan svefn og svo framvegis.
Aðalmálið er að hlaða batteríin daglega og án undantekninga.
2. Mundu hverjar gryfjurnar þínar voru
Flestir sem hafa farið í gegnum kulnun hafa krufið það með sjálfum sér, hverjar helstu gryfjurnar voru sem síðan leiddu til kulnunar.
Viðvarandi álag í of langan tíma já, en hver var okkar eigin ábyrgð í því?
Sögðum við ekki Nei nógu oft, tókum við of mikið að okkur, aðskildum við of sjaldan vinnu og einkalíf, vorum við alltaf sítengd, tókum við aldrei frí….. hvað?
Þótt það sé auðvelt að benda á vinnumhverfið eða álagið sem þar er, jafnvel yfirmanninn eða vinnuveitandann, gagnast það okkur sjálfum best að vera meðvituð um það í hverju okkar eigin gryfjur lágu og forðast að falla í þær aftur.
Við þurfum að læra og muna hvar og hvernig mörkin liggja.
3. Ný viðmið
Eitt er að búa til ný mörk fyrir vinnuna og annað álag í kjölfar kulnunar. Hitt er síðan að búa okkur til ný viðmið.
Því það nýjar leikreglur snúist aðeins um boð og bönn gæti verið óraunhæft til lengdar. Með því að búa okkur til ný viðmið, getum við um leið ákveðið hvenær sveigjanleiki er leyfilegur og hvenær ekki.
Við gætum til dæmis ákveðið að vera ekki með vinnupóstinn í símanum og hvorki lesa né svara tölvupóstum NEMA í undantekningartilvikum.
Og þá þegar við sjálf metum stöðuna svo, að sveigjanleikinn er réttlætanlegur.
Tökum dæmi:
Ímyndum okkur að samstarfsfélagi sé að fara í frí og vilji klára ákveðin verkefni fyrir frí. Þetta gæti þýtt endurgjöf eða svar frá þér, til dæmis í tölvupósti, til að liðka fyrir. Þótt það þýði að þú lesir og svarir tölvupósti eftir vinnu. Hér gætir þú gert undantekningu vegna þess að þér líður vel með það.
Ímyndum okkur hins vegar að samstarfsfélagi vilji klára verkefni og sé tilbúinn til að vinna öllum stundum (svona eins og þú einu sinni), líka kvöld og helgar. Allt er „áríðandi“ en þú veist betur. Gerist eitthvað slæmt þótt það bíði? Hér stendur þú á þínu, forðast gryfjuna og gengur bara í málin á vinnutíma og með full hlaðin batterí.
4. Vertu með stuðningsnet
Mjög margir upplifa kulnun sem mjög persónulegt málefni. Að upplýsa marga um kulnunina þína, kulnunartímann, einkennin, líðanina og svo framvegis, er ekkert endilega sú leið sem hentar öllum.
En það er alltaf gott að eiga stuðningsnet.
Þetta stuðningsnet gæti verið makinn þinn, besti vinur/vinkona, samstarfsfélagi, yfirmaður eða mannauðstjóri.
Að ná tökum á lífinu og vinnu eftir kulnun, þar með talið að byggja upp ástríðuna fyrir starfinu á ný, er eitthvað sem er óþarfi að gera alveg einn.
5. Nýttu tækifærið
Að fara í gegnum kulnun er erfið reynsla sem tekur á bæði líkamlega og andlega. En eins og með svo margt, getum við lært ótrúlega margt jákvætt þegar að við förum í gegnum erfiðleika.
Að endurstilla líf sitt og starf eftir kulnun getur líka boðið upp á ýmiss ný tækifæri. Ekki bara það að stytta vinntímann yfir vikuna eða rækta önnur áhugamál. Kannski er lífið eftir kulnun, með nýjum viðmiðum, breyttum lífstíl og meiri sjálfsrækt líka tækifæri til að láta einhverja gamla drauma eða ævintýri rætast.