Á fyrstu viku þessa árs greindust minnst sjö milljónir Evrópubúa með Covid-19, samkvæmt upplýsingum sem komu fram á blaðamannafundi í dag og vitnað er í í frétt Washington Post.
Hans Kluge, yfirmaður WHO í Evrópu, sagði ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar eiga mun auðveldara með að hanga á mennskum frumum en önnur afbrigði. Þar að auki smitaði það þá sem hefðu verið bólusettir og þá sem hefðu smitast áður.
At this rate, the Institute for Health Metrics and Evaluation (IHME) @IHME_UW forecasts that more than 50% of the population in the Region will be infected with Omicron in the next 6-8 weeks @hans_kluge
— WHO/Europe (@WHO_Europe) January 11, 2022
Þessi mikla fjölgun smitaðra hefur aukið álag verulega á heilbrigðiskerfi Evrópu. Kluge sagðist óttast að því austar sem afbrigðið færi yfir Evrópu, þar sem hlutfall bólusettra er lægra en í vesturhluta heimsálfunnar gæti ástandið versnað til muna.
Ómíkron-afbrigðið á auðveldar með að komast í gegnum þær varnir sem bóluefnin verja, en þau verja fólk þó gegn alvarlegum einkennum og dauða.
Draga úr aðgerðum til að bæta úr álagi
Í mörgum ríkjum Evrópu hefur verið dregið úr sóttvarnaraðgerðum gagnvart bólusettu fólki til að draga úr áhrifum faraldursins á samfélög. Í öðrum hafa sóttvarnarreglur verið hertar fyrir óbólusetta.
Í mörgum ríkjum þar sem hlutfall bólusettra er hátt hafa yfirvöld dregið úr takmörkunum og lengd sóttkvíar og einangrunar til að minnka álagið á hagkerfum og heilbrigðiskerfum ríkjanna.
Tékkar tilkynntu til að mynda í gær að fólk sem ynni við mikilvæg störf mættu fara til vinnu þrátt fyrir að vera með Covid-19. Þar á meðal eru læknar og kennarar en listinn yfir þá mikilvægu er enn í smíðum samkvæmt frétt Reuters.
Færri bólusettir í Austur-Evrópu
Til marks um áhyggjur Kluge af ástandinu í Austur-Evrópu, þá sögðu ráðamenn í Póllandi frá því í dag að fjöldi þeirra sem dáið hafa vegna Covid-19 þar í landi, svo vitað sé, hafi farið yfir hundrað þúsund. Reuters segir að sé litið til hlutfalls milli dauðsfalla og fólksfjölda sé Pólland með hæstu ríkjum heims.
Samhliða því séu um 55,8 prósent íbúa Póllands fullbólusettir. Til samanburðar við það er hlutfall fullbólusettra í Evrópusambandinu öllu 68,7 prósent. Sérfræðingar sem blaðamenn fréttaveitunnar ræddu við sögðu þetta að hluta til mega rekja til þess að um áratuga skeið hafi kommúnistar farið með völd í Póllandi og það hafi grafið undan trú íbúa á ríkisstofnanir og valdið hægt á þróun heilbrigðiskerfis landsins.
Sérfræðingarnir sögðu einnig að ekki hefði verið gripið til nægjanlegra sóttvarnaraðgerða.