Kári segir þetta í samtali við Fréttablaðið. Persónuvernd birti í nóvember ákvarðanir þar sem fram kom að bæði Íslensk erfðagreining og Landspítali hafa brotið persónuverndarlög með mótefnamælingum með blóðsýnatöku úr Covid-19 sjúklingum.
Kári birti svo opið bréf til ríkisstjórnarinnar þar sem hann óskaði eftir stuðningi ríkisstjórnarinnar. Þar gerði hann jafnframt miklar athugasemdir við niðurstöðu Persónuverndar.
Haft er eftir Kára að í svari Katrínar bendi hún á að Persónuvernd sé sjálfstæð stofnun sem starfi á grundvelli laga og því séu hendur ráðherra bundnar varðandi afstöðu til einstakra mála.
Forsætisráðherra bendir ennfremur á að það sé hlutverk dómstóla að leggja mat á réttmæti einstakra úrlausna og hvort stofnanir fari út fyrir verksvið sitt.
„Ríkisstjórnin treysti því að Persónuvernd líkt og önnur stjórnvöld séu í góðri trú að vinna eftir lögum með almannaheill og meðalhóf að leiðarljósi,“ segir í svari Katrínar þar sem hún tekur jafnframt fram að aðkoma Íslenskrar erfðagreiningar í baráttunni faraldrinum verði seint fullþökkuð.
Uppfært: Kári Stefánsson hefur dregið fyrri ummæli sín til baka og sagt þau byggð á misskilningi.