Innlent

Búin að skipa starfs­hóp til að skoða blóð­mera­hald

Eiður Þór Árnason skrifar
Alþjóðlegu dýraverndunarsamtökn TSB Tierschutzbund Zurich og AWF Animal Welfare Foundation birtu í nóvember heimildarmynd um blóðtöku mera á Íslandi.
Alþjóðlegu dýraverndunarsamtökn TSB Tierschutzbund Zurich og AWF Animal Welfare Foundation birtu í nóvember heimildarmynd um blóðtöku mera á Íslandi. Samsett

Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur skipað starfshóp sem hefur það hlutverk að fjalla um blóðtöku á fylfullum hryssum. Mun hópurinn hefja störf á næstu dögum en honum er ætlað að skoða starfsemina, regluverkið og eftirlitið í kringum hana.

Ráðherra kallaði eftir tilnefningum í starfshópinn frá Matvælastofnun og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Iðunn Guðjónsdóttir, sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er formaður hópsins og er skipuð án tilnefningar. Frá þessu er greint í tilkynningu frá ráðuneytinu. 

Auk Iðunnar sitja Sigríður Björnsdóttir, yfirdýralæknir í hrossasjúkdómum hjá Matvælastofnun fyrir hönd stofnunarinnar og Ólafur Páll Jónsson, prófessor við Háskóla Íslands fyrir Siðfræðistofnun í starfshópnum. Honum er ætlað að skila ráðherra tillögum sínum fyrir 1. júní.

Rannsaka slæma meðferð blóðtökuhryssa

Matvælastofnun hefur til rannsóknar meint alvarleg brot á velferð blóðtökuhryssa sem sýnd voru í heimildarmynd sem Alþjóðlegu dýraverndunarsamtökin TSB Tierschutzbund Zurich og AWF Animal Welfare Foundation birtu í nóvember. Verkefni starfshópsins er aðskilið rannsókn Matvælastofnunar.

Að sögn ráðuneytisins hefur Svandís Svavarsdóttir falið starfshópnum að funda með hagaðilum. Auk þess mun almenningi gefast kostur á að tjá sig um störf og tillögur hópsins á Samráðsgátt stjórnvalda þegar þær liggja fyrir.

Blóðmerarhald hefur lengi verið við lýði á Íslandi, en blóðið er tekið úr fylfullum merum og notað til að auka frjósemi svína til manneldis með hormóninu PSMG.


Tengdar fréttir

Koma upp eftir­­lits­­mynda­­vélum hjá blóð­bændum

Fram­kvæmda­stjóri Ís­teka segir að líf­tækni­fyrir­tækið hafi nú hrint af stað um­bóta­á­ætlun vegna frétta sem komu fram í síðasta mánuði um illa með­ferð á blóð­merum. Fram­vegis verði tekið upp mynda­véla­eftir­lit hjá blóð­bændum sem fyrir­tækið skiptir við og þá ætli Ís­teka sér að auka fræðslu til bænda.

„Undir niðri ríkir sorg í samfélagi bænda“

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, var viðstaddur fundi bænda í Njálsbúð í gær þar sem fjallað var um umfjöllun um blóðmerahald. Málið hefur verið til mikillar umfjöllunar undanfarið og margir gagnrýnt blóðbændur. 

Mörg hundruð blóðmerar í eigu Ísteka

Ísteka, fyrirtækið sem framleiðir frjósemislyf úr merablóði einkum fyrir svínarækt erlendis, rekur sjálft þrjár starfsstöðvar (bújarðir) þar sem blóðtaka er stunduð og átti 283 hryssur sem voru í blóðtöku á þessu ári, 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×