Einstaklega þurrt er nú á Suðurlandi og lítið þarf til að koma af stað gróðureldum. Brunavarnir Árnessýslu vilja árétta að fólk sýni ítrustu varkárni um áramótin við notkun flugelda, enda geti glóð úr flugeldum auðveldlega farið í gróður og kveikt gróðurelda.
Fréttastofa greindi frá því í vikunni að gróðureldar hafi kviknað út frá flugeldum í Árnessýslu og slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu slökkti gróðurelda á Seltjarnarnesi í gær.
Gul viðvörun tekur gildi í öllum landshlutum landsins í fyrramálið en á Suðurlandi er gert ráð fyrir norðaustan 15 til 23 metrum á sekúndu. Hvassast undir Eyjafjöllum og ferðaveður varasamt.
Sama staða er uppi á teningnum á Suðausturlandi en hvassast verður í Öræfum. Þar er gert ráð fyrir vindhviðum allt að 45 metrum á sekúndu og ferðaveður er varasamt.
Á Vestfjörðum er spáð norðaustan 15 til 23 metrum á sekúndum með vindhviðum sem geta náð allt að fjörutíu metrum á sekúndu. Lítið skyggni getur verið öðru hvoru í skafrenningi. Sama staða er uppi á Ströndum og Norðurlandi vestra.
Á Norðurlandi eystra er gert ráð fyrir norðaustanhríð með vindraða á bilinu þrettán til tuttugu metrum á sekúndu. Hvassast er við Eyjafjörð og víða er lítið skyggni í snjókomu eða skafrenningi. Ferðaveður er varasamt.
Á Austfjörðum og á Austurlandi er gert ráð fyrir norðanátt og vindur verður á bilinu 15 til 23 metrar á sekúndu. Hviður geta náð allt að 35 metrum á sekúndu og gert er ráð fyrir litlu skyggni.
