Hans Larsson, íþróttastjóri Mjällby, staðfesti við Kristianstadsbladet að þrír kæmu til greina sem næsti þjálfari liðsins: Heimir, Milos og Andreas Brännström. Larsson sagðist vonast til að gengið yrði frá ráðningu nýs þjálfara á næstu dögum.
Milos þekkir vel til hjá Mjällby en hann þjálfaði liðið á árunum 2018-19 og kom því upp um tvær deildir. Síðast var Milos þjálfari Hammarby en var rekinn þaðan eftir að hann ræddi við Rosenborg í leyfisleysi. Síðan þá hefur Milos meðal annars verið orðaður við serbneska stórliðið Rauðu stjörnuna.
Heimir hefur verið án starfs síðan hann hætti hjá Al Arabi í Katar fyrr á þessu ári. Hann stýrði liðinu í þrjú ár.
Mjällby endaði í 9. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Að því loknu hætti Anders Torstensen sem þjálfari liðsins.