Gular viðvaranir hafa verið gefnar út fyrir Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra, Austurland að Glettingi og Austfirði vegna norðaustanhríðar. Reiknað er með að lægi aftur í kvöld.
Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að vegfarendur séu hvattir til að kynna sér færð og ástand vega, sér í lagi ef förinni sé heitið yfir fjallvegi.
„Sunnan og suðvestanlands mun eitthvað snjóa einnig, þó í mun minna mæli en fyrir norðan og austan. Það dregur úr frosti og verður það yfirleitt á bilinu 0 til 4 stig þegar kemur fram á daginn.
Á morgun er áfram útlit fyrir stífa norðan- og norðaustanátt. Það verður úrkomuminna norðan og austanlands en verður í dag, þó má búast við éljum á þessum slóðum. Sunnan heiða er útlit fyrir léttskýjaðan dag. Veður fer smám saman kólnandi á morgun.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Norðan og norðustan 10-18 m/s, hvassast í vindstrengjum sunnan undir fjöllum. Dálítil él á Norður- og Austurlandi, en léttskýjað sunnan heiða. Frost 0 til 7 stig, mildast með austurströndinni.
Á fimmtudag: Norðaustan 8-15 og él norðan- og austanlands, en bjartviðri á Suður- og Vesturlandi. Frost víða 0 til 4 stig.
Á föstudag (gamlársdagur): Austan 5-10, en 10-15 með suðurströndinni. Bjartviðri vestanlands, en annars lítilsháttar él á víð og dreif og smáskúrir syðst á landinu. Frost 0 til 8 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan, en frostlaust syðst.
Á laugardag (nýársdagur): Gengur í hvassa austan- og norðaustanátt með slyddu eða snjókomu, en síðar rigningu sunnanlands. Hlýnandi veður.
Á sunnudag: Ákveðin norðaustanátt með snjókomu norðantil á landinu, slyddu austanlands, en úrkomulaust að mestu sunnan heiða. Hiti kringum frostmark.
Á mánudag: Norðaustan- og austanátt og snjókoma eða él í flestum landshlutum. Víða vægt frost.