Stjórnvöld á Spáni lýstu formlega yfir goslokum á La Palma í gær, en ekki hefur gosið þar síðan 18. desember. Þremur dögum síðar, eða 21. desember, hófst skjálftahrinan á Reykjanesi og óvissustigi var lýst yfir í framhaldinu.
Nú hefur ekki gosið í Fagradalsfjalli síðan 18. september, en þann sama dag hófst gosið á La Palma. Salóme segir þetta merkilega staðreynd en að engin tenging sé þarna á milli.

Líkt og komið hefur fram er útlit fyrir að kvika sé að reyna að brjóta sér leið upp á yfirborðið. Ekkert lát er á skjálftahrinunni en um fimmtán þúsund skjálftar hafa mælst á svæðinu síðan á þriðjudag.
Íbúar á suðvesturhorninu vöknuðu margir við kröftuga skjálfta um fimmleytið í morgun, sá fyrri var 3,6 að stærð og seinni 3,3 að stærð.
„Það má vænta þess að hann hafi fundist á öllu suðvesturhorninu. Grindvíkingar hafa fundið töluvert mikið fyrir þessu og ég býst að þannig hafi það líka verið í Reykjanesbæ,“ segir Salóme.