Frá þessu greindi blaðamaðurinn Emilio Pérez de Rozas í útvarpi Marca á Spáni í dag. Sagði hann Barcelona hafa undirbúið kveðjustund fyrir leikmanninn.
Barcelona sendi frá sér tilkynningu 1. nóvember um að Agüero yrði frá keppni í að minnsta kosti þrjá mánuði vegna hjartsláttartruflana sem hann hefði fundið fyrir í leik við Alavés tveimur dögum áður. Nú er orðið ljóst að leikirnir verða ekki fleiri hjá þessum 33 ára gamla leikmanni.
Agüero náði því aðeins að koma við sögu í fimm leikjum með Barcelona eftir komuna frá Manchester City í sumar.
Hjá City var Agüero lykilleikmaður um árabil og hann átti sex leiktíðir þar sem hann skoraði að minnsta kosti 20 mörk í ensku úrvalsdeildinni.
Agüero varð fimm sinnum Englandsmeistari með City, einu sinni bikarmeistari og sex sinnum deildabikarmeistari. Hann fagnaði sigri í Copa America í sumar með argentínska landsliðinu og vann með því silfurverðlaun á HM 2014.