Ýmis gjöld eru lögð á bifreiðar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti eins og almenn vörugjöld, sérstakt vörugjald, kolefnisgjald, flutningsjöfnunargjald og virðisaukaskattur. Að auki koma síðan bifreiðagjald og úrvinnslugjald, mismunandi eftir bíltegundum.
Öll þessi gjöld og skattar skapa ríkissjóði töluvert miklar tekjur. Þannig hafa áætlaðar tekjur af ökutækjum og eldsneyti verið um 37 milljarðar á ári.
Ýmsar undanþágur hafa verið í gildi varðandi rafmagnsbíla á undanförnum árum til að hvetja til orkuskipta í umferðinni. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að strax á næsta ári verði byrjað að draga úr þessum afsláttum.

„Já, það er aðeins varðandi tengiltvinnbíla. Við erum aðeins að herða skilyrðin smám saman eftir því sem árin líða. En við höfum líka séð mikla þróun í framleiðslu þessarra ökutækja. Það er mjög athyglivert að sjá hversu mikill árangur er að nást hjá framleiðendum. En það sem bíður okkar varðandi þessi ökutæki er í raun og veru að búa til nýtt tekjumódel fyrir ríkið út af eldsneyti og ökutækjum. Innflutningi slíkra tækja,“ segir Bjarni.
Til að vega upp á móti þeirri þróun að sífellt færri fari á bensínstöðvar. En rafknúin ökutæki hafi verið með verulegar ívilnanir bæði varðandi vörugjöld og virðisaukaskatt. Það hafi skilað þeim ánægjulega árangri að Íslendingum hafi tekist að vera mjög framarlega í innleiðingu á grænum ökutækjum.
„En við þurfum að fara að sjá fram á hvað á að taka við. Vegna þess að tekjutap ríkissjóðs ef við gerum ekki neitt fer að stefna í þrjátíu milljarða á ári. Það er þá stuðningurinn sem við höfum verið með ef svona heldur áfram til orkuskipta í samgöngum,“ segir fjármálaráðherra.
Ríkissjóður geti hins vegar ekki hætt að hafa tekjur af umferðinni. Framlag frá henni væri nauðsynlegt til að viðhalda innviðum.
Hvenær kemur nýtt slíkt álagningarkerfi á umferðina?
„Ég sé fyrir mér að það gerist í áföngum. En það verður að teiknast upp á þessu kjörtímabili. Ég myndi vilja sjá fyrstu skrefin gerast vonandi eftir eitt ár, í síðasta lagi eftir tvö,“ segir Bjarni Benediktsson.