Jólamolar Vísis munu birtast reglulega fram að jólum. Þar fáum við að kynnast þjóðþekktum einstaklingum í nýju ljósi og komast að því hvað það er sem kemur þeim í jólagírinn. Jólamolunum er ekki síður ætlað að koma lesendum Vísis í hið eina sanna jólaskap.
Hvort myndirðu skilgreina þig sem Elf eða The Grinch?
„Ég held að ég sé bara jólabarn eins og hver annar. Hef gaman af öllu þessu umstangi og birtunni sem verður í myrkasta skammdeginu.“
Hver er þín uppáhalds jólaminning?
„Ég á mjög hlýjar minningar sem ég bind við gjafir sem foreldrar mínir gáfu mér sem barn. Sérstaklega var það Hyundai 166 mhz pentium tölva sem þau gáfu mér sem breytti ansi miklu.
Í seinni tíð hefur það verið að upplifa jólin í gegnum börnin mín. Það finnst mér það allra skemmtilegasta.
Svo var gaman sem ungur maður að fara með vinum sínum á Lord of the Rings í bíó, þrjú jól í röð.“
Hver er eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Hyundai 166 mhz pentum tölva með henni fylgdi Tomb Raider tölvuleikur og svo eignaðist ég Winamp sem spilaði Mp3 og þar hlustaði ég meðal annars á lagið Fita með Dialectics úr Árbænum. Árið 1999 var gjöfult.“
Hver er versta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Sem maður í yfirstærð er alltaf sárt að fá föt sem eru of lítil.“
Hver er uppáhalds jólahefðin þín?
„Að spila á jóladag eða annan í jólum, þegar maður þvær mesta hátíðaróþverrann framan úr sér.“
Hvað er uppáhalds jólalagið þitt?
„Þú komst með jólin til mín.“
Hver er þín uppáhalds jólamynd?
„Hringadróttinssaga kemur mér í skapið, einhverra hluta vegna.“
Hvað borðar þú á aðfangadag?
„Borðaði alltaf rjúpur, svo stundum önd. En núna erum við komin í Wellington.“
Hvað óskar þú þér í jólagjöf í ár?
„Kindle, fræsihefil, frönskunámskeið og ferðalag.“
Hvað er það sem hringir inn jólin fyrir þér?
„Þegar mamma mín spilar jólaoritoríuna, rétt fyrir klukkan sex.“
Er eitthvað skemmtilegt á döfinni hjá þér núna fyrir jólin?
„Bara taka á móti gestum á kaffihúsinu og vínbarnum mínum Mikka Ref og reyna skrifa eitthvað af þeim átján verkefnum sem ég er með opin í tölvunni samhliða.“
„Í ár hlakka ég sérstaklega til í að finna lítið og eldgamalt verkfæri í skúffunni hennar mömmu sem kemur úr Gljúfrasteini. Það er upptakari sem hefur þann fítus að halda flöskunni sem er opnuð með honum lokaðri líka.“
„Við náum í þetta ég og móðir mín og hlæjum eins og vitleysingar því þetta minnir okkur á ömmu Auju - Auði Laxness og hennar búralegustu hliðar.“
„Og ég hlakka sérstaklega til að finna þessa hlýju á aðfangadagskvöld í ár.“