Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að frá því hlaupið hófst fyrir hálfum mánuði hafði íshellan yfir Grímsvötnum nú undir kvöld sigið um átján metra, eða um átta metra frá því í gær, og hefur því nálgast hratt það tuttugu metra sig sem dugði til að hleypa af eldgosi árið 2004.

Engin merki um gosóróa hafa þó sést í dag á jarðskjálftamælum á Grímsfjalli, samkvæmt upplýsingum Veðurstofu, sem tekur fram í tilkynningu nú síðdegis að vísindamönnum komi saman um að mælingar sýni að aðstæður séu með þeim hætti að Grímsvötn séu tilbúin að gjósa. Ekkert sé þó hægt að fullyrða um að eldgos verði samfara þessu hlaupi en fylgst sé grannt með skjálftavirkni sem gæti gefið vísbendingar um yfirvofandi gos.

Rennslið úr Grímsvötnum var í dag komið í 1.300 rúmmetra á sekúndu en hlaupvatnið fer um farveg undir jöklinum og brýst svo fram undan Skeiðarárjökli, einkum úr gamla útfalli Skeiðarár. Hlaupvatnið fer síðan vestur með jökulsporðinum og sameinast í farvegi Gígjukvíslar.
Þar á brúnni mældu vatnamælingamenn Veðurstofu í dag rennslið í 930 rúmmetrum á sekúndu. Hafði það nær þrefaldast á þremur sólarhringum og er þetta tífalt rennsli árinnar miðað við árstíma.

Spáð er að hlaupið núna verði þó innan við einn tíundi hluti þess sem var í hamfarahlaupinu í Gjálpargosinu fyrir aldarfjórðungi en það sópaði burt brúnni yfir Gígjukvísl og hluta Skeiðarárbrúar. Það hlaup breytti hlauprásinni undir jöklinum og ísstíflunni í Grímsvötnum, að sögn Helga Björnssonar jöklafræðings.
„Þá eyðileggst þessi stífla,“ segir Helgi. Hlaupvatnið hafi eftir það laumað sér meðfram Grímsfjalli.

„Þannig hefur það verið alla tíð síðan. En núna er hún farin að gróa, þessi stífla, og þá fer þetta að verða eins og gömlu hlaupin; vex hægt og rólega,“ segir jöklafræðingurinn.
Sem þýðir að mannvirki eru núna talin í lítilli hættu.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: