Innlent

Segja Vinnumálastofnun tvívegis hafa deilt netföngum skjólstæðinga í fjölpóstum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Svo virðist sem viðtakendur fjölpósta frá Vinnumálastofnun hafi tvívegis á þessu ári getað séð netföng annarra sem fengu sama póst.
Svo virðist sem viðtakendur fjölpósta frá Vinnumálastofnun hafi tvívegis á þessu ári getað séð netföng annarra sem fengu sama póst. Vísir/Vilhelm

Vinnumálastofnun virðist tvívegis á þessu ári hafa deilt tölvupóstföngum skjólstæðinga sinna í fjölpóstum. Fyrra atvikið átti sér stað í júní en þá var um að ræða póst sem varðaði endurupptöku umsókna um greiðslur í sóttkví.

Seinna atvikið átti sér stað í október, þegar tölvupóstföng enskumælandi einstaklinga voru birt í fjölpósti um geðheilsumál.

Frá þessu greinir Fréttablaðið.

Í frétt blaðsins segir einnig að óvarlega hafi verið farið með persónuupplýsingar í Facebook-hópum á vegum Vinnumálastofnunar en aðgangstillingum í þeim hefur nú verið breytt.

Að sögn Unnar Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunnar, voru umrædd atvik tilkynnt til Persónuverndar og Vigdís Eva Líndal, sviðsstjóri hjá Persónuvernd, staðfestir það og segir málið í farvegi.

„Þetta er viðkvæmt mál fyrir marga og mér fyndist mjög óþægilegt ef þessi gögn kæmust í hendur fólks sem ég hef unnið með. Þetta gæti komið sér illa fyrir trúverðugleika minn í starfi og kemur sér illa fyrir fyrirtækið mitt og mig sem fagmann,“ hefur Fréttablaðið eftir einum þeirra sem urðu fyrir gagnalekanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×