Íslenska landsliðið leikur sína leiki í Búdapest, í stærstu handboltahöll Evrópu, og byrjar á leik við Portúgal 14. janúar.
Það er eins gott að strákarnir okkar séu bólusettir gegn Covid-19, eða búnir að fá sjúkdóminn og þar með mynda mótefni, því samkvæmt reglunum sem EHF hefur nú sett er það skilyrði til að fá að spila á mótinu.
Vísir spurði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóra HSÍ, fyrr í þessum mánuði hvort að þetta gæti skapað vandræði fyrir Ísland. Hann sagði svo ekki vera. Allir leikmenn sem valdir hefðu verið í síðasta verkefni hefðu í það minnsta verið bólusettir.
EHF segir að leikmenn verði skyldaðir til að fara í PCR-próf annan hvern dag en öfugt við það sem var á EM kvenna í Danmörku fyrir ári síðan þá verða þeir ekki lokaðir inni í búblu allt mótið. Þannig verður leikmönnum leyft að fara út af hóteli sínu, ekki bara til að fara á æfingar og spila leiki.
Ef að leikmaður greinist með smit á mótinu þá verður hann sendur í einangrun. Liðsfélagar þurfa þá að fara í sóttkví en losna úr henni um leið og neikvætt sýni fæst úr smitprófi.
Á síðasta stórmóti, HM í Egyptalandi í janúar, var engin krafa um bólusetningar enda var þá tiltölulega nýbyrjað að bólusetja fólk gegn Covid-19. Veiran hafði mikil áhrif á mótið og þurfti að skipta tveimur liðum út vegna hópsmita.
EM karla fer fram dagana 13.-30. janúar, í Ungverjalandi og Slóvakíu. Ísland leikur sína leiki í Búdapest og er í riðli með Portúgal, Hollandi og Ungverjalandi.