Þrír leikmenn Bayern eru óbólusettir, þýsku landsliðsmennirnir Joshua Kimmich, Serge Gnabry og Jamal Musiala.
Vegna hertra sóttvarnareglna mega þeir ekki dvelja á sama hóteli og aðrir leikmenn Bayern og þurfa að ferðast í annarri rútu en þeir í leiki.
Bayern mætir Alfreð Finnbogasyni og félögum í Augsburg í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld. Bæjarar þurftu að breyta plönum sínum fyrir leikinn í samræmi við nýju sóttvarnareglurnar.
Kórónuveirusmitum í Bæjaralandi hefur fjölgað mikið að undanförnu og álagið á heilbrigðiskerfið hefur aukist í samræmi við það. Því hafa stjórnvöld í Bæjaralandi gripið til hertari aðgerða og meðal annars meinað óbólusettum að sækja veitingastaði og dvelja á hótelum.