Í frétt miðilsins kemur fram að Helgi hafi hætt í október eftir að hafa fengið formlega áminningu vegna hegðunar sinnar í garð samstarfskonu. Kvartaði hún til yfirstjórnar Landsvirkjunar í vor og sagði Helga ítrekað hafa farið yfir mörk og áreitt sig með orðum og gjörðum.
Konan starfaði á starfsmannasviði fyrirtækisins en sagði upp áður en Helgi hætti þar sem hún treysti sér ekki til að vinna á sama vinnustað og hann.
Helgi vildi ekki ræða við Stundina.
Miðillinn hefur eftir heimildarmönnum að alvarlegasta atvikið hafi átt sér stað í vor, þegar Helgi á að hafa króað konuna af úti í horni og strokið kinn hennar gegn vilja hennar. Þá er Helgi hafður hafa sagt ítrekað við konuna að hún væri lesbíuleg eftir að hafa farið í klippingu.
Samkvæmt heimildamönnum Stundarinnar bað Helgi konuna afsökunar og bauð henni að klípa sig í rassinn. Þeir segja málið ekki hafa verið skilgreint sem kynferðislega áreitni heldur sem óviðeigandi hegðun.