Fótbolti

Henry hetja Lyon | Ís­­lensku lands­liðs­­konurnar sátu á bekknum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Amandine Henry skoraði sigurmark Lyon í kvöld.
Amandine Henry skoraði sigurmark Lyon í kvöld. Manuel Queimadelos /Getty Images

Báðum leikjum D-riðils Meistaradeildar Evrópu er nú lokið. Segja má að D-riðill sé Íslendingariðill en þar leika Lyon, Bayern München, Häcken og Benfica.

Lyon og Bayern mættust í sannkölluðum stórleik í kvöld. Glódís Perla Viggósdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sátu því miður allan tímann á varamannabekk Bayern en Lyon vann dramatískan 2-1 sigur. Þá var Sara Björk Gunnarsdóttir ekki með Lyon sökum barnsburðar.

Um miðbik fyrri hálfleiks varð Kadeisha Buchanan fyrir því óláni að skora sjálfsmark sem þýddi að gestirnir frá Þýskalandi voru 1-0 yfir í hálfleik. Markið kom eftir vel útfærða hornspyrnu gestanna.

Janice Cayman jafnaði metin fyrir Lyon eftir aðeins fimm mínútna leik í síðari hálfleik. Eftir það var leikurinn stál í stál og stefndi í að 1-1 jafntefli yrði niðurstaðan. Í leit Lyon að sigurmarki kom Ada Hegerberg inn af bekknum en hún er að ná fyrri kröftum eftir langan tíma frá vegna meiðsla.

Amandine Henry skaut hins vegar upp kollinum - í bókstaflegri merkingu - og skoraði sigurmark leiksins þegar aðeins fjórar mínútur voru til leiksloka.

Staðan orðin 2-1 Lyon í vil og reyndust það lokatölur í frábærum leik.

Í Portúgal mættust Benfica og Häcken. Cloé Lacasse, fyrrum leikmaður ÍBV, var í byrjunarliði heimakvenna á meðan Diljá Ýr Zomers sat allan leikinn á spýtunni hjá gestunum.

Staðan var markalaus í hálfleik en þegar stundarfjórðungur lifði leiks fengu gestirnir vítaspyrnu. Elin Rubensson fór á punktinn og kom Häcken yfir. Staðan orðin 1-0 gestunum í vil og reyndust það lokatölur leiksins.

Lyon er á toppi riðilsins með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir. Bayern er í 2. sæti með fjögur stig, Häcken þar á eftir með þrjú og að lokum Benfica með eitt stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×