Um tvö þúsund manns eru nú við landamæri Hvíta-Rússlands og Póllands en Pólverjar hafa kallað út fjölda hermanna til að verja landamærin. Ástandið hefur verið svona við landamærin síðan í byrjun ágúst en nokkur fjöldi flóttafólks hefur látið lífið á svæðinu. Ástandið þar er verulega slæmt en þar er hitastig nú farið niður fyrir frostmark og fólkið talið í lífshættu, enda fast milli pólskra og hvítrússneskra landamæravarða. Fréttastofa AP greinir frá.
Varnarmálaráðuneyti Póllands hefur sakað hvítrússneska landamæraverði um að hafa skotið úr byssum upp í loftið við landamærin þar sem farendurnir hafa komið upp búðum. Ráðuneytið deildi myndbandi á Twitter þar sem heyra má skothvelli.
Służby białoruskie zastraszają migrantów oddając strzały w ich obecności. pic.twitter.com/GTvrW5xUYU
— Ministerstwo Obrony Narodowej 🇵🇱 (@MON_GOV_PL) November 10, 2021
Ástandið á landamærunum hefur bara farið versnandi undanfarnar vikur og ríkir svipað ástand við landamæri Hvíta-Rússlands að Litháen og Lettlandi.
Ástandið má í raun rekja til deilna Evrópusambandsins og Alexanders Lúkasjenka, forseta Hvíta-Rússlands, en sambandið hefur lagt harðar viðskiptaþvinganir á landið vegna alræðistilburða forsetans.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur þá sakað Lúkasjenka um að laða flótta- og farandfólk til Hvíta-Rússlands og nota það í pólitískum tilgangi, sem Lúkasjenka tekur fyrir.
Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands sakaði þá Vladímír Pútín Rússlandsforseta um að vera á bak við flóttamannakrísuna á landamærunum í gær. Rússnesk stjórnvöld hafa kalllað eftir því við Evrópusambandið að það greiði Hvítrússum fyrir að stöðva flæði fólks inn um landamæri sambandsins í Póllandi.

Meirihluti flóttafólksins eru ungir karlmenn en í hópnum eru einnig konur og börn. Öll eru þau frá Mið-Austurlöndum eða Mið-Asíu og hófst uppsöfnun flóttafólksins við landamærin sömu viku og Talibanar tóku völd í Afganistan. Fólkið hefur tjaldað upp við landamærin, rétt innan Hvíta-Rússlands, og er í raun fast milli pólskra og hvítrússneskra landamæravarða.