Sport

Anton af öryggi í undanúrslit á EM

Sindri Sverrisson skrifar
Anton Sveinn McKee á ferðinni á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar. Nú er hann við keppni á EM í 25 metra laug í Kazan.
Anton Sveinn McKee á ferðinni á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar. Nú er hann við keppni á EM í 25 metra laug í Kazan. EPA/VALDRIN XHEMAJ

Anton Sveinn McKee synti af öryggi inn í undanúrslit í 200 metra bringusundi á Evrópumótinu í 25 metra laug í Kazan í Rússlandi í morgun.

Anton náði níunda besta tímanum í undanrásum en hann synti á 2:06,29 mínútum.

Síðasti maður inn í undanúrslitin synti á 2:07,47 mínútum en bestum tíma náði Rússinn Mikhail Dorinov sem synti á 2:02,88 mínútum.

Anton syndir því í undanúrslitum í annað sinn á mótinu en hann varð í 16. sæti í 100 metra bringusundi fyrr í vikunni.

Undanúrslitin í 200 metra bringusundinu fara fram síðdegis í dag eða um klukkan fimm.

Steingerður bætti sig í tveimur greinum á EM

Steingerður Hauksdóttir keppti í sinni þriðju grein á mótinu, 100 metra baksundi, og endaði í 26. sæti af 28 keppendum sem tóku þátt. Hún synti á 1:03,33 mínútu en síðasti keppandi inn í undanúrslit var hin austurríska Lena Grabowski á 1:00,32 mínútu.

Steingerður bætti sinn besta tíma í greininni um 19/100 úr sekúndu. Hún bætti sig því í tveimur af þremur greinum sínum en hefur nú lokið keppni á EM.

Um helgina lýkur keppni á EM þegar Anton Sveinn keppir í 50 metra bringusundi og Snæfríður Sól Jórunnardóttir í 200 metra skriðsundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×