Sport

Anton Sveinn í undanúrslit á EM

Sindri Sverrisson skrifar
Anton Sveinn McKee syndir aftur í Kazan síðar í dag eftir að hafa komist áfram úr undanrásum.
Anton Sveinn McKee syndir aftur í Kazan síðar í dag eftir að hafa komist áfram úr undanrásum. EPA/VALDRIN XHEMAJ

Anton Sveinn McKee synti sig inn í undanúrslit 100 metra bringusunds á Evrópumeistaramótinu í 25 metra laug í Kazan í Rússlandi í morgun.

Anton varð í 17. sæti í undanrásum í dag á 57,98 sekúndum. Sextán sundmenn komast í undanúrslitin en kvóti er á því hve margir keppa þar frá hverju landi. Tveir Rússar og einn Ítali sem náðu betri tíma en Anton komust því ekki áfram.

Anton synti í fjórða og síðasta riðlinum og varð síðasti maður úr þeim riðli inn í undanúrslitin eftir að hafa náð 6. sæti af þeim tíu sem voru í riðlinum. Anton var þó rétt á eftir næstu mönnum og til að mynda aðeins 4/10 úr sekúndu frá 2. sæti riðilsins.

Íslandsmet Antons í greininni, frá því í Búdapest í fyrra, er 56,30 sekúndur og hann var því talsvert frá sínu allra besta.

Hvít-Rússinn Ilya Shymanovich náði bestum tíma í undanrásunum en hann synti á 56,04 sekúndum. Hann var sá eini sem synti undir Íslandsmettíma Antons.

Undanúrslitin fara fram síðdegis og eiga að hefjast klukkan 16:43 að íslenskum tíma.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×