Erlent

Verkamannaflokkurinn kallar eftir grímuskyldu og heimavinnu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Á sýnatökustað í Englandi.
Á sýnatökustað í Englandi. epa/Andy Rain

Verkamannaflokkurinn kallar eftir því að stjórnvöld á Englandi skipti samstundis yfir í svokallað „plan B“ vegna stöðu kórónuveirufaraldursins þar í landi. Plan B felur meðal annars í sér að fólki yrði ráðlagt að vinna heima og að grímuskylda yrði tekin upp á ný.

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar segjast hins vegar ekki sjá þörf á því að skipta strax yfir í plan B en plan A, sem nú er farið eftir, felur meðal annars í sér að bjóða viðkvæmum hópum örvunarskammt og ungmennum á aldrinum 12 til 15 ára einn skammt af bóluefni. 

Samtök opinberra heilbrigðisstofnanna á Englandi og Bresku læknasamtökin eru meðal þeirra sem hafa hvatt stjórnvöld til að taka aftur upp sóttvarnaaðgerðir vegna ástandsins. 

„Vísindamennirnir segja að fólk ætti að vinna heima og bera grímu og við ættum að gera það,“ sagði skuggafjármálaráðherrann Rachel Reeves í samtali við Andrew Marr þáttinn á BBC. „Fáið plan A til að virka betur því bólusetningaátakið virðist hafa staðnað og takið upp þessa þætti plans B á meðan,“ sagði hún.

Fleiri en 350 þúsund manns fengu örvunarskammt á Englandi á laugardag en samkvæmt opinberum tölum var einn af hverjum 55 íbúum Englands með Covid-19 í síðustu viku. Þá greindust 39.962 með sjúkdóminn og mun þetta vera í fyrsta sinn í tólf daga sem færri en 40 þúsund greinast.

6.405 liggja inni vegna Covid-19 á Englandi, mun færri en í fyrri bylgjum en 72 létust.

BBC greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×