Það var Járningamannafélag Íslands, sem stóð að Íslandsmótinu, sem fór fram í gær hjá Eldhestum. Keppendurnir átta komu víða að landinu, allt karlmenn og vanir járningamenn. Það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga við járningu hesta og hófhirðu þeirra.
Sigurður Sæmundsson á Skeiðvöllum í Holtum hefur járnað mörg þúsund hesta í gegnum árin enda einn af færustu járningamönnum Íslands.
„Fyrir þann sem skilur járninguna og kann hana þá er þetta ekkert flókið verk, það er bara mjög auðvelt. En til þess þurfa menn að vita hvað þeir eru að gera, þetta er bara eins og með læknirinn og bílvirkjana,“ segir Sigurður.
En hvað þarf að einkenna góðan járningamann?
„Gott skap og sterkur líkami. Það þarf alltaf að vera jákvæður hrossunum og láta sér ekki renna í skap mikið og vita hvað þú ert að gera. Svo verður þú náttúrulega að hafa heppilegan skrokk fyrir járninguna því að þú sérð það seinna að þetta er rosalega þung vinna.“

Keppnin var hörð og spennandi og gekk Sigurður á milli keppenda og tók út verk þeirra, ásamt Sturlu Þórhallssonar meðdómara, enda var til mikils að vinna að fá þennan risa farandbikar. Það fór svo að lokum að Geert Cornelis, sem er frá Belgíu en hefur járnað á Íslandi til fjölda ára var krýndur Íslandsmeistari í járningum fyrir árið 2021. Í öðru sæti varð Gunnar Halldórsson og Halldór Kristinn Guðjónsson varð í þriðja sæti.
Geert segir að þrátt fyrir að járningar geti verið erfiðar og tekið á þá séu þær mjög skemmtilegar og gaman að vinna sem járningamaður. „Allt hefur sína kosti og galla,“ segir hann alsæll með Íslandsmeistaratitilinn.

Engin kona tók þátt í Íslandsmeistaramótinu í ár en vonast er til að einhverjar þeirra skrái sig til keppninnar á næsta ári því það færist mjög í vöxt að konur starfi við járningar á Íslandi líkt og karlarnir.
