Það var liðsfélagi Verstappen hjá Redbull liðinu, Sergio Perez, sem hafði átt besta tímann á æfingu dagsins áður og því stóðu vonir stuðningsfólks Redbull til þess að þeir félagarnir myndu raða sér fremst.
Það var samt Lewis Hamilton, hjá Mercedes, sem átti sterkasta tímann framan af og lengi vel leit út fyrir að tíminn hans, 1:33:119, myndi duga honum til þess að vera fremst í ræsingunni í kvöld. Max Verstappen var á öðru máli, átti sinn besta hring í lokin og hrifsaði til sín toppsætið á tímanum 1:32:910.
Margir munu fylgjast vel með gangi mála í ræsingunni í kvöld, en það hefur verið grunnt á því góða á milli Verstappen og Hamilton á æfingum undanfarinna daga og á föstudagskvöldið mátti sjá Verstappen senda Hamilton fingurinn. Verstappen hefur sex stiga forystu á Hamilton í stigakeppni ökuþóra.