„Mér fannst við ná að framkvæma sóknirnar okkar vel þegar við töpuðum ekki boltanum. Við fórum meira inn í teiginn í seinni hálfleik. Í seinni hálfleik náðum við að stoppa skotin þeirra betur en við gerðum í þeim fyrri,“ sagði Bjarni Magnússon.
Haukar töpuðu 23 boltum í leiknum sem er talsvert meira en þær eru vanar að gera.
„Við vorum að henda Tinnu Guðrúnu í djúpu laugina. Hún átti að stjórna sóknarleiknum þar sem Haiden Palmer er meidd. Jana Falsdóttir kom inn á og stóð sig vel.“
Helena Sverrisdóttir missti af síðasta leik Hauka vegna meiðsla. Bjarni var ánægður með að hafa endurheimt hana á nýjan leik.
„Það er meiri yfirvegun í okkar leik þegar hún er að spila. Leikurinn í kvöld sýndi líka hvað Haiden Palmer er mikilvæg. Fyrir leik höfðum við mest verið að tapa 12 boltum í leik en í kvöld töpuðum við 23,“ sagði Bjarni Magnússon að lokum.