Mohammed al Maktoum, leiðtogi Dúbaí og forsætisráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna, hefur átt í hatrammri skilnaðar- og forræðisdeilu við Hayu prinsessu af Jórdaníu undanfarin ár. Hún flúði til Evrópu og fékk hæli í Bretlandi.
Nú hefur enskur dómstóll komist að þeirri niðurstöðu að sjeik Mohammed hafi látið brjótast inn í símana og látið koma fyrir í þeim njósnaforriti. Þannig hafi hann brotið gegn breskum hegningarlögum og mannréttindasáttmála Evrópu. Hann hafi gerst sekur um að trufla störf dómstólsins, aðgang Hayu að réttarkerfinu og að misnota vald sitt sem þjóðarleiðtogi, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Pegasus-njósnaforrit ísraelska fyrirtækisins NSO gaf útsendurum sjeiksins upplýsingar um staðsetningu símanna, textaskilaboðum, tölvupóstum og skilaboðum í öðrum samskiptaforritum. Þá gátu þeir hlerað símtöl og fylgst með símaskrá, lykilorðum, færslum í almanak og myndum.
Ekki aðeins það heldur bauð forritið upp á að þeim sem komu því fyrir gætu virkjað símana án vitneskju eigenda þeirra og jafnvel tekið upp og myndað þá.
Sjeik Mohammed neitar nokkurri vitneskju um innbrotin. Hann hafi ekki skipað neinum að koma njósnaforriti fyrir í símum fyrrverandi konu sinnar, lögmanna hennar, aðstoðarmanns og tveggja öryggisvarða.
Sérfræðingur sem var kallaður fyrir dóminn sagðist þó eki í vafa um að Pegasus-forritið hafi verið notað til þess að brjótast inn í símana. Einn aðili í einu þjóðríki hefði staðið að því.
Fyrrverandi forsætisráðherrafrú benti á njósnirnar
Upp um njósnirnar komst þegar Cherrie Blair, eiginkona fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, lét lögmann Hayu vita af þeim. Blair hafði þá starfað sem ráðgjafi fyrir NSO. Starfsmenn fyrirtækisins bentu henni á að Pegasus-forritið kynni að hafa verið misnotað til þess að fylgjast með símum Hayu og lögmanns hennar.
NSO hefur verið sakað um að gera einræðisherrum víða um heim kleift að fylgjast með andófsfólki og blaðamönnum. Fyrirtækið heldur því sjálft fram að forritið sé aðeins selt ríkisstjórnum til að berjast gegn glæpa- og hryðjuverkamönnum.