Erlent

Vilja draga Lúka­sjenka fyrir Al­þjóða­dóm­stólinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Alexander Lúkasjenka, einræðisherra Hvíta-Rússlands.
Alexander Lúkasjenka, einræðisherra Hvíta-Rússlands. AP/Sergei Shelega

Evrópuþingið mun mögulega samþykkja á morgun þingsályktunartillögu um að ákæra ætti Alexander Lúkasjenka, einræðisherra Hvíta-Rússlands, fyrir pyntingar og bælingu.

Meðlimir þingsins segja Lúkasjenka hafa látið handtaka og pynta fjölmarga mótmælendur í Hvíta-Rússlandi í fyrra en minnst 700 þeirra eru enn í fangelsi. Þingmennirnir vilja að mál Alþjóðadómstóllinn í Haag taki málið gegn einræðisherranum til skoðunar.

Samkvæmt frétt DW munu þingmenn líklega greiða atkvæði um málið á morgun.

Umfangsmikil mótmæli brutust út eftir forsetakosningar í Hvíta-Rússlandi síðasta sumar. Lúkasjenka, sem hefur stjórna landinu frá 1994 og er gjarnan kallaður síðasti einræðisherra Evrópu, hefur verið sakaður um kosningasvik.

Sjá einnig: Fjöldahandtökur, ofbeldi og landflótti

Öryggissveitir hans beittu mikilli hörku gegn mótmælendum og leiðtogum stjórnarandstöðunnar, sem eru margir í fangelsi.

Sjá einnig: Vill breyta stjórnarskrá til að útiloka stjórnarandstöðuna

Deilur Lúkasjenka við Evrópu eru einnig til komnar vegna farand- og flóttafólks sem Hvít-Rússar hafa sent yfir landamærin til Póllands, Litháen og Lettlands. Í þeim ríkjum hafa ráðmenn kallað út hermenn og lýst yfir neyðarástandi á landamærunum og lokað þeim.

Evrópusambandið hefur sakað einræðisherrann um að flytja flóttafólk til Hvíta-Rússlands og senda þau yfir landamærin til Evrópu.

Fólkið hefur verið rekið aftur að landamærum Hvíta-Rússlands. Yfirvöld í Póllandi hafa til að mynda verið sökuð um mannréttindabrot fyrir að neita að taka hælisumsóknir fólksins fyrir en vitað er til þess að minnst fimm hafa dáið á landamærunum.

Þing Hvíta-Rússlands samþykkti á mánudaginn lagafrumvarp sem snýr að því að yfirvöld landsins geta nú neitað að taka við flóttafólkinu aftur. Í frétt Politico segir að nýju lögin muni líklega gera deilurnar enn verri.


Tengdar fréttir

Ritstjóra saknað eftir húsleit í Minsk

Ekkert hefur spurst til Irinu Levshynu, ritstjóra helstu sjálfstæðu fréttastofu Hvíta-Rússlands, eftir að lögregla gerði húsleit heima hjá henni í nótt. Samtök blaðamanna í landinu segja að í það minnsta þrjátíu blaðamenn sitji nú í fangelsi.

Ákvað að flýja eftir varnaðarorð ömmu sinnar

Hvítrússneski spretthlauparinn Krystina Tsimanouskaja ákvað að snúa ekki aftur til heimalandsins þegar hún var á leiðinni á flugvöll í Tókýó eftir að amma hennar varaði hana við henni væri ekki óhætt að snúa heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×