Marcos eldri var einræðisherra á Filippseyjum í tuttugu ár en honum var steypt af stóli árið 1986. Stjórnartíð hans einkenndist af aftökum utan dóms og laga og pyntingum á stjórnarandstæðingum.
Þrátt fyrir það nýtur Marcos-fjölskyldan enn stuðnings sums staðar á Filippseyjum og er Marcos yngri, sem er almennt þekktur undir gælunafninu Bongbong, sérstaklega vinsæll á meðal ungs fólks, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Hann tilkynnti um framboð sitt á Facebook-síðu sinni í dag. Lofaði hann því að verða sameiningarafl fyrir þjóðina yrði hann kjörinn.
Gagnrýnendur Marcos yngri saka hann um að hvítþvo ímynd föður síns og stjórnar hans með því að leggja áherslu á efnahagsuppsveiflu en gera lítið úr mannréttindabrotum sem áttu sér stað.
Sjálfur segist Marcos yngri hafa verið of ungur á þeim tíma til að hann geti verið talinn meðsekur í glæpum föður síns. Engu að síður var hann ríkisstjóri í heimahéraði Marcos-fjölskyldunnar frá 1983 til 1986 þegar hann var á þrítugsaldri. Hann er nú 64 ára gamall.
Duterte forseti hefur verið hallur undir Marcos-fjölskylduna. Heimilað hann að líkamsleifar Marcos eldri yrðu grafnar með viðhöfn á Filippseyjum árið 2016 og hefur ýjað að því að hætta ætti leit að gríðarlegum auðæfum sem fjölskylda hans stal.
Sumir sjá fyrir sér bandalag Marcos yngri og Söru Duterte, dóttur sitjandi forseta, en hún er borgarstjóri í Davao.
Mótframbjóðendur Marcos yngri verða meðal annars Manny Pacquiao, fyrrverandi heimsmeistari í hnefaleikum, og Francisco Domagoso, borgarstjóri höfuðborgarinnar Manila. Orðrómar hafa lengi verið á kreiki um að Sara Duterte gæti hugsað sér að taka við af föður sínum.