Ólafur sem stýrði FH til þriggja fyrstu Íslandsmeistaratitla félagsins og lagði grunninn að stórveldi félagsins tók við liðinu á miðju sumri.
Ólafur kom inn eftir að Logi Ólafsson var látinn fara eftir slæmt gengi liðsins. Ólafur stýrði FH-liðinu til sjötta sætis í Pepsi Max deildinni.
FH tilkynnti í dag að Ólafur hafi gert tveggja ára samning eða út 2023 tímabilið.
Óli Jóh heldur áfram. #ViðerumFH pic.twitter.com/rpOrWCiO5J
— FHingar (@fhingar) October 1, 2021
Ólafur er á sínu fjórða kafla sem þjálfari FH-liðsins. Hann tók fyrst við liðinu sem spilandi þjálfari í lok níunda áratugarins og kom því þá upp í efstu deild og alla leið í upp í annað sæti úrvalsdeildarinnar.
Hann náði ekki að bjarga FH frá falli á 1995 tímabilinu en næsta innkoma hans átti eftir að breyta öllu fyrir félagið.
Ólafur stýrði FH til fyrsta Íslandsmeistaratitils félagsins fyrir sautján árum síðan en hann vann fjóra stóra titla með FH liðinu frá́ 2003 til 2007. Liðið varð Íslandsmeistari 2004, 2005 og 2006 og vann síðan bikarinn 2007.
Davíð Þór Viðarsson sem hafði áður verið bæði aðstoðarmaður Loga Ólafssonar og síðan Ólafs Jóhannessonar í sumar hefur ákveðið að hætta sem aðstoðarþjálfari liðsins. „Er honum þakkað vel unnið starf síðastliðið ár. Það er trú félagsins að með ráðningu Ólafs og frekari tilkynningum á næstu misserum um breytingar hjá Fimleikafélaginu muni styrkja félagið í því að verða leiðandi afl í íslenskri knattspyrnu," segir í tilkynningu frá FH.