Í samtali við fréttastofu staðfesti Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis, að beiðni um endurtalningu í kjördæminu hafi verið lögð fram af hálfu umboðsmanna Vinstri grænna. Yfirkjörstjórn muni koma saman eftir hádegi á morgun og taka afstöðu til beiðninnar, sem var lögð fram vegna þess hve mjótt var á munum í kjördæminu. VG vantaði aðeins átta atkvæði til að ná inn kjördæmakjörnum þingmanni, á kostnað Miðflokks.
Formenn yfirkjörstjórna í öðrum kjördæmum hafa í samtölum við fréttastofu upplýst um að ekki standi til að ráðast í endurtalningu að svo stöddu. Þannig sagði Gestur Jónsson í Norðausturkjördæmi að ekkert væri uppi þar sem gæfi tilefni til endurtalningar. Það sama var uppi á teningnum hjá Heimi Herbertssyni, formanni yfirkjörstjórnar í Reykjavík suður.
Erla S. Árnadóttir, formaður yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis norður, sagði að hluti atkvæða hafi verið endurtalinn þar, og ekkert komið í ljós sem benti til að endurtelja þyrfti öll atkvæðin, sem voru yfir 35 þúsund.
„Við erum með afstemmingar og aðferðir sem eigi að virka alveg til þess að þetta sé rétt. Við reyndar endurtöldum hluta af atkvæðunum,“ sagði hún.
Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður yfirkjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi, tók í sama streng og sagði endurtalningu ekki fyrirhugaða í kjördæminu þegar fréttastofa hafði samband við hann.
Gagnrýni á framkvæmd í Norðvesturkjördæmi
Eftir endurtalninguna í Norðvesturkjördæmi setti Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í kjördæminu, fram harða gagnrýni á framkvæmd kosninganna og sagði kjörgögn ekki hafa verið innsigluð frá fyrstu talningu og fram að endurtalningu.
Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, hefur staðfest við fréttastofu að kjörgögn hafi ekki verið innsigluð heldur skilin eftir í læstum sal á talningarstað í einhvern tíma, eftir fyrstu talningu.