Í viðtali við Associated Press gaf Turabi lítið fyrir gagnrýni á grimmilegar refsingar talíbana, meðal annars opinberar aftökur, og varaði erlend ríki við því að skipta sér af innanríkismálum Afganistan.
„Allir gagnrýndu okkur fyrir refsingarnar á íþróttavöllunum en við höfum aldrei gagnrýnt lög og viðurlög annarra,“ sagði hann. „Enginn segir okkur hvernig okkar lög eigi að vera. Við fylgjum íslam og munum byggja okkar lög á Kóraninum.“
Turabi var dómsmálaráðherra í fyrri stjórn talíbana og yfir ráðuneyti velsæmismála. Þá sóttu oft hundruð manna opinberar aftökur, þar sem dauðarefsingin var framkvæmd með byssuskoti í höfuðið.
Oft voru það skyldmenni fórnarlambsins sem tóku í gikkinn.
Ræningjar misstu ýmist hönd eða fót.
Að sögn Turabi munu dómarar ákveða refsingu brotamanna og vill hann meina að konur verði þeirra á meðal. Sagði hann „öryggismál“ að aflima seka, þar sem það væri víti til varnaðar fyrir aðra.
Turabi var einn af alræmdari leiðtogum talíbana þegar þeir voru áður við völd en eitt fyrsta verk hans í embætti var að öskra á blaðakonu og skipa henni að yfirgefa herbergi þar sem hún var eina konan. Þá sló hann mann í andlitið sem mótmælti.
Hann var einnig mjög strangur þegar kom að útliti og skipaði öllum embættismönnum að bera vefjarhött og safna skeggi. Þeir sem voru stuttskeggjaðir voru lamdir af fylgismönnum hans.