Framherjinn Ivan Toney fékk dæmda vítaspyrnu fyrir Brentford á 26. mínútu þegar að Fernando Marcal togaði í hann innan vítateigs. Toney fór sjálfur á punktinn og kom gestunum í 1-0.
Heimamenn voru nálægt því að jafna metin á 32. mínútu þegar að skot Adama Traore hafnaði í þverslánni. Aðeins tveim mínútum síðar fékk Ivan Toney boltann úti á vinstri kanti og fann félaga sinn Bryan Mbeumo inni í markteig sem kláraði færið í opið markið.
Brentford fór því með tveggja marka forskot inn í hálfleikinn og brekkan orðin ansi brött fyrir heimamenn.
Shandon Baptiste náði sér í gult spjald í liði Brentford eftir tæplega klukkutíma leik og nokkrum mínútum síðar krækti hann sér í sitt annað gula spjald og þar með rautt þegar hann braut klaufalega á Trincao.
Heimamenn spiluðu því manni fleiri seinustu 35 mínútur leiksins. Þeir náðu þó ekki að nýta sér liðsmuninn og niðurstaðan því 0-2 sigur Brentford sem er nú með átta stig eftir fimm leiki. Þetta var hins vegar fjórða tap Wolves í fyrstu fimm umferðum ensku úrvalsdeildarinnar og liðið hefur aðeins þrjú stig.