Í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra segir að landrisið sé rúmlega 7 sentimetrar sem telst mikið á þessu tímabili.
Líklegasta skýringin sé að á 2-3 kílómetra dýpi sé kvika að safnast fyrir. Í næstu viku ætla Veðurstofa Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans að efla mælingar og vöktun í Öskju til þess að fylgjast enn betur með hegðun eldstöðvarinnar.
Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila.