Samkeppnisaðilar Viaplay á Íslandi hafa gagnrýnt verðlagningu streymisveitunnar en framan af þessu ári kostaði Viaplay Total um þrefalt meira á hinum Norðurlöndunum.
„Það sem maður kannski óttast mest er hvort þeir séu að gera þetta á viðskiptalegum forsendum eða bara að koma sér inn á markaðinn og í raun að nota undirverðlagningu til að koma sér inn. Þetta er mjög ódýr þjónusta en við sjáum það núna að þeir eru búnir að kaupa nokkra dýra sýningarrétti. Það verður forvitnilegt þegar kostnaðurinn þeirra hækkar mjög mikið á Íslandi vegna réttanna hvort þeir muni hækka verð til samræmis,“ sagði Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri miðla og sölu hjá Símanum, við Vísi í febrúar.
Þá sagði Magnús í hlaðvarpsþættinum Tæknivarpið stuttu síðar að hann reiknaði með að verð myndu hækka samhliða því að streymisveitan myndi stækka íþróttapakka sinn. Í haust mun Viaplay byrja að sýna Meistaradeild Evrópu í fótbolta en Viaplay deilir réttinum með Stöð 2 Sport.
Reyndu að tryggja sér enska boltann
Viaplay opnaði dyr sínar fyrir Íslendingum í apríl 2020 og hóf íþróttaútsendingar hér á landi í maí sama ár. Síðan þá hefur streymisveitan tryggt sér fjölda sýningarrétta á erlendu íþróttaefni og tryggði sér á þessu ári sýningarréttinn á leikjum íslenska karlalandsliðsins í fótbolta á árunum 2022 til 2028.
Fyrr á þessu ári reyndi móðurfélag Viaplay, norræna fjölmiðlasamsteypan Nordic Entertainment Group, svo að taka yfir sýningar ensku úrvalsdeildarinnar hér á landi en fyrirtækið á sýningarréttinn á hinum Norðurlöndunum og víðar í Evrópu.
Svo fór þó að Síminn hafði betur í baráttunni við Sýn og Viaplay um réttinn og sýnir deildina áfram til ársins 2025.
Vísir og Stöð 2 Sport eru bæði í eigu Sýnar hf.