Handbolti

Vill breytingar á fyrir­komu­lagi þýsku úr­vals­deildarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alfreð Gíslason telur að það þurfi að fækka liðum í þýsku úrvalsdeildinni til þess að landsliðið fái meiri tíma til undirbúnings fyrir stórmót.
Alfreð Gíslason telur að það þurfi að fækka liðum í þýsku úrvalsdeildinni til þess að landsliðið fái meiri tíma til undirbúnings fyrir stórmót. Jan Woitas/Getty Images

Alfreð Gíslason, þjálfari þýska landsliðsins í handbolta, vill sjá breytingar á fyrirkomulagi þýsku úrvalsdeildarinnar og segir ekki nóg að klæðast búningi þýska landsliðsins til að ná árangri.

Alfreð ræddi við þýska íþróttamiðilinn Sport Bild um stöðu mála í Þýskalandi. Alfreð vill fækka liðum í þýsku úrvalsdeildinni um tvö svo landsliðið hafi meiri tíma til æfinga. Sem stendur eru 18 lið í deildinni en Alfreð telur að 16 lið sé hæfilegt magn. Verði ekki breytingar gerðar gæti hann hætt þjálfun landsliðsins.

Akureyringurinn segir ekki boðlegt að Þýskaland mæti á stórmót í handbolta án þess að hafa undirbúið sig almennilega. Það sé í raun uppskrift af tapi. Nefnir hann undirbúning liðsins fyrir Ólympíuleikana í Tókýó máli sínu til stuðnings.

Það er ekki hægt að gera þá kröfu á hann sem landsliðsþjálfara eða leikmenn liðsins að saman vinni þeir til verðlauna þegar undirbúningurinn sé svo gott sem enginn. Það sé ekki nóg að klæðast búningi Þýskalands til að ná árangri, það þurfi einnig að æfa.

Alfreð lýsir því yfir í viðtalinu að hann hafi áhuga á að þjálfa landsliðið næstu árin en aðstæður þurfi hins vegar að breytast. Ef hann á að ná árangri þarf hann meiri tíma með liðið svo það komi betur undirbúið til leiks.

Alfreð er með samning við þýska handknattleikssambandið fram yfir Evrópumótið sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×