Már átti þriðja besta tímann í undanrásum í 100 baksundi í nótt og var annar í bakkann í sínum undanriðli er hann synti metrana 100 á einni mínútu og 10,90 sekúndum. Hann var því einn þeirra átta keppenda sem komust í úrslitin sem fóru fram í morgun.
Már var á þriðju braut í úrslitasundinu í morgun og var annar, aðeins einum hundraðshluta úr sekúndu á eftir fyrsta manni þegar sundið var hálfnað. Hann gaf hins vegar eilítið eftir á síðari 50 metrunum og kom fimmti í mark.
Hann kom í bakkann á tímanum 1:10,36 sem er bæting á hans eigin Íslandsmeti upp á 1:10,43.
Úkraínumaðurinn Mykhailo Serbin var hlaut gull í greininni en hann synti á 1:08,63. Næstur á eftir honum var landi hans Viktor Smyrnov á 1:09,36 og þriðji var hinn kínverski Yang Bozun á 1:09,62.
Már á eftir að keppa í tveimur greinum á mótinu. Hann keppir í 200 metra fjórsundi á mánudag og 100 metra flugsundi á lokadegi mótsins, föstudaginn 3. september.