Frá þessu greinir í tilkynningu frá frambjóðendunum. Segir að framboðið leggi áherslu á að rödd ungs fólks fái að heyrast innan flokksins og að fulltrúar yngri kynslóða hljóti enn frekara brautargengi í trúnaðarstöður.

„Þá leggur framboðið áherslu á að SUS sé öflugur vettvangur ungs fólks í pólitískri umræðu og telur mikilvægt að SUS veiti forystu Sjálfstæðisflokksins áfram nauðsynlegt aðhald. Kjörnir fulltrúar eigi að beita sér fyrir framgangi frelsismála í anda grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins og vinna markvisst að því að halda henni á lofti í störfum sínum.

Lísbet Sigurðardóttir er 25 ára lögfræðingur, fædd og uppalin í Reykjavík og er starfsmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Lísbet hefur tekið virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins síðastliðin ár, sat í stjórn SUS árin 2019-2021 og situr í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd flokksins. Þá hefur Lísbet verið virk í félagsstörfum á öðrum vettvangi og sat m.a. í stjórn Orators, félagi laganema við HÍ og í stjórn Vöku, hagsmunafélagi stúdenta. Hún starfaði áður hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, hjá Jónatansson & Co. lögmannsstofu og sem aðstoðarkennari í fjölskyldu- og erfðarétti við Háskóla Íslands.

Steinar Ingi Kolbeins er 24 ára, fæddur í Reykjavík og hefur alla tíð búið í Grafarvogi. Steinar stundar nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Undanfarin ár hefur hann starfað í félags- og frístundamiðstöðvum í Gufunesbæ samhliða námi, þá starfar hann einnig sem blaðamaður. Steinar hefur víðtæka reynslu af félagsstarfi, bæði innan Sjálfstæðisflokksins sem og utan hans. Hann hefur setið í stjórn Vöku, hagsmunafélagi stúdenta, Heimdalli, félagi ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík og Politicu, félagi stjórnmálafræðinema. Þá hefur Steinar komið að starfi Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum, til að mynda sem kosningastjóri í prófkjöri auk annarra trúnaðarstarfa.
Ingveldur Anna Sigurðardóttir er 24 ára meistaranemi í lögfræði við Háskóla Íslands. Hún er uppalin á bænum Varmahlíð undir Eyjafjöllum en hefur einnig búið í Vík og Búðardal. Ingveldur Anna starfar hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og skipar 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í suðurkjördæmi til alþingiskosninga. Hún hefur verið virk í félagsstörfum og m.a. setið sem forseti Vöku, hagsmunafélags stúdenta, 2019-2020 og tekið þátt í starfi ungra sjálfstæðismanna á Suðurlandi,“ segir í tilkynningunni.