Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar þar sem farið er yfir þau miklu hlýindi sem hafa verið á Norður- og Austurlandi í vikunni, og í raun stóran hluta sumarsins.

Eins og komið hefur fram var sautján ára gamalt hitamet slegið í vikunni þegar hitinn fór í 29,4 gráður á Hallormsstað, þar á undan hafði hæsti hiti í ágúst mælst 29,2 gráður, þann 11. ágúst 2004 á Egilsstöðum.
Hitamet var einnig sett í Grímsey í fyrradag þegar hiti mældist 22,3 gráður, en fyrra met var 21,7 gráður, þann 27. júlí árið 2011.
Þá var júlímánuður sumarsins sá heitasti sem mælst hefur á Akureyri frá upphafi, þegar meðalhitastigið hækkaði um eina gráðu frá fyrra meti.
Enn heitt í veðri og ekki útlit fyrir breytingar á næstu dögum
Þó að ágústmánuður sé að líða undir lok er enn heitt í veðri á Norður- og Austurlandi, hiti á bilinu 17-21 stig.
En þeir sem voru að vona að hægt væri að gera aðra atlögu að hitametinu sem sett var við Teigarhorn í Berufirði í júní 1939, þegar hiti mældist 30,5 gráður, verða líklega fyrir vonbrigðum með nýjustu uppfærslu Veðurstofunnar.

Þar segir að þó áfram verði hlýtt á þessum slóðum og ekki sé von á breytingum á næstu dögum, er hlýjasti loftmassinn farinn frá landinu.
„Veðrið í sumar hefur að mörgu leyti verið mjög einsleitt, og hefur staða veðrakerfana verið svipuð svo vikum skiptir. Ekki er útlit fyrir miklar breytingar á næstu dögum þó hlýjasti geiri loftmassans sé farinn austur fyrir land, og því ekki útlit fyrir að hitametið frá Teigarhorni verði slegið þetta sumarið,“ segir í frétt á vef Veðurstofunnar.